fimmtudagur, desember 23, 2010

Takk trúleysingjar

Í sífelldu umróti samfélagsins og atburða liðinna missera gleðst hjarta mitt við þá rótfestu sem ég finn. Stofnanir hverskonar, veraldlegar sem og andlegar, segja Ísland á heljarþrön vegna sjáanlegrar hnignunar á viðurkenndum lífsháttum og hegðun. Hvar sem menn finna sig í lífinu er æpt yfir því óréttlæti sem birtist á svo margan hátt: börn kæra foreldra sína, fólk þiggur svífandi háar upphæðir frá ríkinu og sólunda í vitleysu, börn misnotuð af traustverðum einstaklingum og skinheilagir menn leika tveimur skjöldum. Hinn almenni borgari sligast með byrðina af því að heyra af þessum málum og vonar helst, ekki að einhver bjargi málunum heldur, að þurfa ekki að horfa í augu við enn fleiri þess konar mál. Aðrir þrífast á að heyra af ólifnaði annarra og telja sig verða meiri menn við það, berandi enga ábyrgð og vilja allra síst sjá jákvæða breytingu. Aðrir vonast eftir breytingu, leita til fortíðar þar sem allt var betra og benda á það sem hið algilda svar við vandamálum nútíðar. En ljónið Aslan, konungur Narníu, sagði: Hlutirnir gerast aldrei tvisvar á sama hátt.

Ægis vindar blása frá vígstöðum þeirra manna sem kalla sig trúleysingja og guðleysingja. Vindurinn er napur en beitt af hörku. Vandamál dagsins í dag eru, að þeirra sögn, sprottin frá því að í blindni hafa menn trúað og haldið að fólki þeim Kristi sem enginn heilvita maður gæti bendlað sig við. Og með markvissri, miskunnarlausri vinnu fá þeir ýmislegt í gegn inn í landslög, reglur borgarinnar og almenningsvitund sem þeir telja munu hnekkja á þeirri kristni sem allt snýst um að eyða. Kappið er mikið og framgangurinn eftir því. Það mikill að hinir kristnu hafa snúið spjótum sínum að hinum trúlausu og nú skal úrslitabardagi háður milli góðs og ills, og báðir telja sig góða. Sigur þýðir fyrir báðar herbúðir líf í friði og farsæld; loforð sem ávallt eru gefin fyrir stríð en sjaldnast standa undir sér. Báðar herbúðir sitja eftir meira og minna laskaðar án stefnu og vilja til uppbyggingar. Samstarf sem viðurkennir tilvist hins aðilans leiðir gjarnan til skilnings á lífssýn hins aðilans. Samtal í friði og kærleika getur veitt innsýn í það af hverju einstaklingur hætti að fylgja trúarkenningu og fann sig betur í trúleysi, eða hvernig einstaklingur sem hvergi fann svör og lífstilgang fann hugarró í trú á æðri mátt. Aðilar af öndverðum meiði ættu í þannig samtali að spyrja sig hvað það er í hinum aðilanum sem fær hann til að hugsa þannig og hvað getur betur farið. Kirkjunnar maður getur lært af þeim trúlausa sem segir frá slæmri reynslu af trúarróttækni og hinn trúlausi getur lært að trú er ekki bara neikvætt afl sem er mannspillandi. Þannig mætti ánægjulegt samfélag hinna mismunandi aðila gefa af sér skilningsríkara samfélag.

Og nú, með von um hrokaleysi af mínu hálfu, vil ég þakka hinum trúlausu. Ég vil þakka þeim fyrir að standa gegn orðum Jesú, standa gegn þeim krafti sem þeir finna að er svo hættulegur. Að standa gegn konunginum sem tók sér sæti í jötu og var leiddur nauðugur viljugur á kross. Ég vil þakka þeim fyrir að staðfesta orð Páls um að kross Krists sé gyðingum hneyksli og heiðingjum heimska. Svo lengi sem hinir trúlausu kalla kristindóm heimsku geta hinir kristnu þakkað þeim. Ef þeir kalla kristindóm ekki heimsku getur aðeins tvennt hafa gerst: kristindómur er orðinn svo daufur að saltið saltar ekki og þess vegna ekki ómaksins vert að úthúða honum, eða að hinn trúlausi hefur sannfærst af kærleika Krists! Hinn trúlausa vil ég því hvetja til andkristnihátíða, bingóspils á páskum og ákalls um brottnám kristinna gilda, en því fremur aldrei að telja sig hafa fundið hinn endanlega frið. Læra meira, lesa meira, gefa meira, elska meira. Hinn kristna vil ég hvetja enn djarfar.

Telji hinn kristni sig hafa fundið lífsfyllingu í Jesú Kristi þá þýðir það algjör kúvending á öllu því sem telst eðlilegur réttur. Telji hinn kristni sig finna kraft Guðs, þá noti hann hann ekki til eigin hagsmuna heldur taki sér stað meðal hinna lægstu, því Guð dvelur með þeim fátæku og hungruðu. Kraftur Guðs birtist í jötunni, að Jesús kemur í lítillæti, heimtar ekkert og óskar einskis, nema þess að menn hlusti á hann, láti sannfærast af orðum hans og gefi sér allt. Og það er ekki af eigingirni sem Jesús biður um allt, heldur þá einungis sem maðurinn hefur gefið Jesú allt getur Jesús gefið sig allan í Heilögum anda þeim manni. Kristindómur snýst ekki um mann. Kristindómur snýst um nærveru Guðs hér á jörðu, í Jesú Kristi. Guð vill að hinn kristni hlusti ekki á gagnrýnina á kristinni trú heldur á kallið sem býður okkur að vakna, til lífsins í elsku og fögnuði Guðs. Það líf mótast ekki af vindum samtímans, hvorki neikvæðum né jákvæðum, heldur af Heilögum anda sem stöðuglega leiðir hinn kristna til að elska meir þann sem ekki á það skilið því aldrei getur neinn sýnt okkur meiri óvild en Jesú var sýnd. En enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína, segir Jesús. Áður en hinn trúlausi getur skilið kærleik Guðs þarf heimurinn að sjá að hinir kristnu elska föðurinn og gera eins og hann hefur boðið þeim. Þakkir sendi ég aftur hinum trúlausu fyrir að halda hinum kristnu við efnið.

2 ummæli:

  1. Guðbjartur Nilsson23/12/10 21:42

    Góður var þessi pistill :)

    SvaraEyða
  2. Dásamlegt, Kv. Gummi.

    SvaraEyða