mánudagur, desember 27, 2010

Gjafir

Gjafir eru tákn um samband. Fjölskyldumeðlimir sem eru í sambandi gefa við ýmis tilefni gjafir. Eftir því sem sambandið er nánara verður gjöfin veglegri og persónulegri. Konfektkassi er ekki persónulegur nema þiggjandinn sé þekktur konfektunnandi. Sumar gjafir eru gefnar í von um nánara samband. Eiginmaður gefur konu sinni tvímenningshjól með það í huga að hjóla með henni. Faðir sem hefur verið fjarlægur barni gefur veglega gjöf í von um endurreisa brotið samband. Stundum virkar gjöfin sem skyldi en stundum má líka segja einstaklingum að nánara sambands sé óskað. Sú hugmynd að vinir og ættingjar þurfi að senda öllum póstkort og gjafir um jól er tiltölulega ný af nálinni og er haldið að okkur af búðareigendum. Þarf ég virkilega að gefa bróður mínum innpakkaða bíómynd, sem hann annaðhvort á nú þegar eða langar ekkert að sjá, á hverjum jólum til að sýna að ég kunni að meta samband okkar? Þurfa foreldrar mínir að fá hausverk yfir því að kaupa handa mér gjöf sem hvorki er of ódýr (til að móðga mig ekki) né of dýr (til að sliga þau ekki), til að sýna að þau elski mig? Ég held að sú elska sem ég upplifi í hverju því verki sem í velvilja er gert gagnvart mér gefi meir en oft óþarfar innpakkaðar gjafir. Nú má ég ekki vera misskilinn. Meir en ég stundum tel mig vilja, bíð ég óþreyjufullur eftir því að sjá hvað leynist í pökkunum; ég á bara auðveldara með að sýna stillingu núna á fullorðinsárum. En óþreyjan og spennan skapar stundum betri tilfinningu en það að halda á opnuðum gjöfunum inn í herbergi. Mikið er ég samt glaður yfir sælgætinu sem ég fæ, bókunum sem ég get lesið, sokkunum sem mig vantaði og fyndna dótinu sem einhver gaf mér vegna þess að hann hugsaði til mín þegar hann sá það í búðinni, en á svo mörgum sviðum lífsins stenst uppfylling biðarinnar ekki væntinga. Við setjum of mikinn fókus á að öðlast það sem við bíðum eftir að við föttum ekki að við getum vel lifað af án þess. Að bíða allan desembermánuð eftir súkkulaði og sokkum er kjánalegt og hlýtur að bregðast vonum. Sá sem að þekkir ekki hina ljúfu blessun biðarinnar – það er, að komast af án einhvers – hann mun aldrei upplifa fulla blessun uppfyllingar. Hið dýrmætasta sem við eignumst í þessum heimi öðlumst við ekki með því að bíða, borðandi smákökur í von um að öðlast lífshamingju á aðfangadagskvöld. Það mikilvægasta, mesta og ljúfasta öðlumst við með bið. Ekki biðar um að eitthvað gerist í hvelli, heldur samkvæmt lögmáli sáningar og uppskeru.

Guð þráir að gefa okkur gjafir sínar en hann gefur okkur þær ekki nema við fyrst verðum vinir hans. Og, ó, sú náð að fá að vera vinur Guðs. Abraham var kallaður vinur Guðs og hann trúði fyrirheiti Guðs um að hann myndi gefa honum son á tíræðisaldri. Vinir treysta hvor öðrum; að þeir hafi hag hvors annars fyrir brjósti, standi upp hvor fyrir annan og gefa gjafir á viðeigandi tíma. Í vinasambandi við Guð bíða sumir eftir gjöfinni of lengi og þegar þeir telja sig hafa fengið einhverja gjöf frá Guði þá verður hún ekki eins merkileg og gjöfin sem hann gaf Billy Graham og konunni í Hillsongkirkjunni. Þess vegna ákveðum við að setja gjöfina strax í geymslu, alveg eins og dúnsængurkassinn sem kom undan gjafapappírnum og fór upp í skáp þangað til að dúnsængin gæti notast. Hálfu ári seinna, þegar gest bar að garði, þurfti að nota dúnsængina og náð var í kassann. En úr kassanum kom glás af eldhúsverkfærum sem sett höfðu verið í kassann og hefðu getað nýst í brýnni nauðsyn síðasta hálfa árið. Þær gjafir sem Guð gefur okkur, gefur hann til að við fáum notið þeirra og vaxið með þeim. Guð geymir fjöldann af gjöfum fyrir okkur en hann nýtur þess að sjá okkur blómstra af þeim gjöfum sem hann telur okkur hæfa. Hringlur henta vel eins árs börnum og veita þeim ómælda gleði, en fjörutíu árum seinna er hringlan minnismerki um þá gleði sem gjöfin veitti. Sú gjöf að geta stutt eitt ABC-barn (www.abc.is) er ótrúleg gleði og blessun þá og þegar, en mörgum árum seinna þegar maður stendur sveittur að byggja barnaskóla í svörtustu Afríku (eins og mörg ykkar hafa örugglega gert) trúi ég því að maður hugsi til þess þegar maður studdi eitt barn í trú og ánægjan fullkomnast. Þá gjöf sem Guð gefur okkur hverju sinni verðum við að spyrja hann hvernig við eigum að nota og hvernig við getum notið hennar með honum. Það er einhvern veginn þannig að:

Stundum gefur Guð okkur brauð,
stundum vill hann kenna okkur að baka.
Stundum gefur Guð mikla uppskeru,
stundum gefur hann okkur fræ.
Alltaf gefur hann,
ekki þiggjum við alltaf.

Er við meltum jólin, líkamlega og andlega, lærum þá að nýta þær gjafir sem Guð hefur gefið okkur og lærum hvernig gjafir hans geti gert öðrum gagn. Hvernig getum við vitað að við séum að nýta þær til hins ítrasta? Gjafir hans veita blessun þeim sem sjá okkur, heyra í okkur og við okkur tala, og breiða út þekkinguna um Guð eins og góðan ilm. Ég bið þess að Guð gefi okkur örlæti í nægjusemi, visku í einlægni og gleði til að njóta þess með honum sem hann hefur gefið okkur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli