sunnudagur, október 24, 2010

Vonin ljós


Í messu hinnar Evangelísku kirkju Krists í Radolfzell í morgun var þess minnst að sjötíu ár eru liðin frá því að 6000 gyðingar úr nágrenninu voru fluttir í þrælkunarbúðir Nasista. Þrátt fyrir háan meðalaldur messugesta þá muna eflaust fáir eftir þessum atburði en sorgin og skömmin var eins og þetta hefði gerst í gær. Boðskapurinn var þó ekki að dvelja í skömminni, ófær um góð verk; þvert þó heldur, að miðla þeirri von sem við eigum til hrjáðs heimsins. En hver er von okkar og hvernig miðlum við henni?

Þegar vonin er óljós kemur ekki á óvart að við henni er ekki tekið. Páll postuli sagðist vera ,,lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra.“1 Mitt í lögsóknum á hendur hinum frumkristnu flykktust menn að þeirri von sem þeir voru lögsóttir fyrir. Nú á dögum eru kirkjunnar menn lögsóttir fyrir allt annað en þá von sem líf þeirra á að grundvallast á. Páll segist vera lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra. Hver er þessi upprisa hinna dauðu? Upprisa dauðra er sú staða Guðs barna sem í vændum er með endurlausn líkama okkar.2 Í þeirri von segist Páll vera hólpinn. Þessi fullvissa, um að Guð myndi endurheimta hann úr dauðanum og gera hann að barni sínu fyrir trú sína á Jesú Krist, gerði Páli fært að standa frammi fyrir yfirvöldum keikur. Að láta ekki hið illa sigra sig en sigra illt með góðu.3 Pétur hinn misstigni sagði okkur að binda alla von okkar við þá náð sem okkur mun veitast við opinberun Jesú Krists.4 Öll okkar von á að vera bundin við það að Guð mun allt rétt gera einn daginn. Við getum verið of upptekin af því að reyna sannfæra heiminn um alls annars konar von, t.d. að von Íslands byggist á að kenna kristin gildi. Kristin gildi þýða lítið ef þau eru ekki fædd út af voninni um góðan Guð sem elskar heiminn.

Hvernig birtist þessi von í lífi okkar? Vonin birtist í að elska óvini okkar og biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur. Jesús sagði að þannig sýnum við að við erum börn föður okkar á himnum. Börn föðurins sem lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.5 Von sem bregst ekki þó það rigni á brúðkaupsdaginn, bregst ekki þrátt fyrir veikindi og jafnvel von sem lætur mann illt þola fyrir réttlætissakir er sú von sem dauði Jesú færði okkur. Þannig að hvort sem að þjóð þín hafi skipulega drepið milljónir saklausra samborgara eða trúarinnar fyrirmyndir hafi brugðist, þá er það vonin ljúfa sem heldur okkur nærri náð Guðs og elsku.

Frekari lestur: Rómverjabréfið 8., 12. og 13. kafla, 1. Pétursbréf.

1. Postulasagan 23.6.
2. Rómverjabréfið 8.23.
3. Rómverjabréfið 12.21.
4. Fyrra Pétursbréf 1.13.
5. Matteus 5.38-48.

1 ummæli: