sunnudagur, desember 25, 2011

Guð með oss!


,,Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða: ,,Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss." - Matteus 1:22-23.

Grundvallarboðskapur jólanna og kristninnar allar er þessi þrjú orð: Guð með oss. Alla tilveru okkar, líf, hjálp, lausn, gleði og frið eigum við í þessum þremur orðum: Guð með oss. Allt finnur tilgang sinn í þessum orðum. Og þetta eru ekki orðin tóm heldur er þetta upplifun þess raunveruleika sem Guð hefur haft í hyggju frá örófi alda. Guð með oss LOKSINS.

Hann er ekki kominn aðeins til að dvelja með okkur um stund. Tjaldbúðin í eyðimörkinni og musterið í Ísrael var einungis tímabundinn dvalarstaður Guðs. Guð sagði Ísraelsmönnum stöðugt að hann vildi ekki takmarka sig við byggingu heldur vildi hann flæða þaðan út, hann vildi fylla heiminn af sjálfum sér eins og vatnið fyllir sjóinn. Hann vildi að tréin myndu klappa fyrir sér er hann gengi fram hjá. En Ísraelsmenn hugsuðu: Guð fyrir oss – Guð BARA með oss, og tímdu ekki að deila Guði með nágrönnum sínum og gátu þess vegna ekki notið hans því Guð er kærleikur og kærleikur fer til spillis ef honum er ekki deilt. Ísrael sá Guð með oss ekki sem svar fyrir heiminn heldur tromp í ermi sér.

En vilji Guðs var þeim leyndur. Vilji Guðs er ávallt leyndur þeim hrokafulla, þeim eigingjarna, þeim níska, rógberum, lygurum og eiginlega öllum sem ekki hafa sundurkramið og auðmjúkt hjarta. Leyndardóm vilja síns birti Guð í náð sinni sem hann ætlaði sér að framkvæma í fyllingu tímanna. Leyndardómur vilja Guðs er sá að hann ætlar að safna öllu sem til er á himni og jörðu undir eitt höfuð í Kristi. Öll saga heimsins fyrir Jesú, líf Jesú og allt sem gerst hefur eftir opinberun hans hefur einn tilgang: allt vegna Jesú. Og Jesús kom og gerði vesælasta kima vesælasta lands heimsins að hásæti sínu, litla jötu í fjárhúsi. Og boðskapur Jesú frá upphafi er sá að allt hefur tilgang og allt hefur afleiðingar. Ef þú ert settur á lægstan stað í heiminum er huggun og von, ef þú ert settur í hæstu hæðir ertu varaður við hátt fallið. Allt miðast af því að Jesús er allt í öllu, Guð er með oss. Guð með oss er núllstilling mannsins. Þessi vér sem Guð með oss er með, er mannkynið allt. Guð er kominn til að búa sér stað meðal allra. Ekkert manngreinarálit. Guð með oss þýðir enginn dómur, enginn aðskilnaður milli manna, ekkert misrétti og mannamunur. Hvert barn sem fæðist inn í heiminn er innifalið í oss. Það er ekkert sem við getum gert í því nema að gera þeim grein fyrir því. Guð dæmir réttilega á sinn hátt og einungis fyrir Jesú nafn eigum við frelsið en það er ekki okkar verk að ákveða hver er inni og hver er úti í ossinu.

Að gera fólki grein fyrir því að það er innifalið í Guð með oss er viðkvæmt verkefni sem Jesús gaf vinum sínum. Guð með oss er eilífðarverkefni okkar, að uppgötva hvernig Guð með oss virkar í hversdagslífinu, í samfélaginu, í fjölskyldu, vináttu og alþjóðamálum. Mikilvægasta skrefið í að uppgötva drottinvald Jesú yfir heiminum og upplifa þann kraft sem býr í okkur sem reisti Jesú upp frá dauðum, er að sjá Jesú í öðrum. Við höfum verið dugleg að tala um Jesú í mér, að Jesús lifir í mér og það gefur mér kraft til að lifa sigrandi trúarlífi. En ef að Guð með oss er raunveruleikinn þá snýst lífið ekki aðallega um að vita að Jesús búi í mér heldur um Jesú í ÞÉR. Jesús í þér. Jesús býr í þér. Jesús býr í þessum, þeim, honum, henni og öllum hinum. Jesús í þér er fyrsta hugsun sem á að koma til okkar er við mætum manneskju. Hvort sem það er ættingi, vinur, samstarfsfélagi, nágranni eða óvinur. Jesús í þér er viðmót hins kristna. Guð faðir hefur ekki farið í neitt manngreinarálit heldur hefur sett sitt einkenni á okkur öll. Elska hans býr í öllum mönnum, fegurð Guðs, réttlæti, friður og fögnuður; allt er þetta okkur í blóð borið en ekki höfum við öll uppgötvað það. Að mæta náunga okkar með því að hugsa Jesús í þér gefur okkur tækifæri til að grafa þessa eiginleika Guðs fram í náunganum. Um menn og konur sem lifað hafa einstöku og fallegu lífi er oft sagt: Hún dregur fram það besta í mér. Hinn kristni sem uppgötvað hefur Jesú í sér er orðinn að veiðara að Jesú í þér. Sama hverjum hinn kristni mætir, bróður eða systur innan kirkju, fjölskyldumeðlimi, vini, harðnaðasta glæpamanni og betlara, þá er fyrsta hugsun hans Jesús í þér. Sú hugsun er þúsund gráða heit og bræðir hið kaldasta hjarta. Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í Jesú nafni þar er hann mitt á meðal og það verður að raunveruleika þegar við upplifum bæði Jesú í mér og Jesú í þér. Jesús mitt á meðal – Guð með oss. Vísindamenn leita að guðseindinni, öreindinni sem á að útskýra upphaf alheims. Hinn kristni leitar að Jesú-eindinni sem hver maður hefur, hann ræktar hana, vökvar hana og treystir Guði að gefa uppskeruna. Dæmisögur Jesú, gjörðir hans og orð snúast öll að einhverju leyti um að sjá það sem mönnum er hulið og opinbera það með viðeigandi hætti. Stundum þarf langa bið og þolinmæði, stundum er þörf á róttækni og stundum útsjónarsemi. En allt miðast að því að sjá Guð með oss verða að veruleika. Sá heimur sem uppgötvað hefur kraft Guðs með oss heitir Guðs ríki og er sá raunveruleiki sem Guð starfar í. Jesús sagði að Guðs ríki væri í nánd, í raun sagði hann að það væri í seilingarfjarlægð.

Ríki Guðs sem er í seilingarfjarlægð bíður þess að vera gripið og upplifað. Myndmál Nýja testamentisins er svo ríkt af lýsingum á þessu nýja lífi sem Guð bíður eftir að við uppgötvum og njótum, eins og gjafari bíður óþreyjufullur eftir að viðtakandi opnar gjöfina og nýtur. Jóladagur er of stuttur til að kafa í merkingu þess. Þess vegna kemur kirkjan saman aftur og aftur og aftur og aftur án þess að taka sér frí, því nýja lífið sem við tökum á móti í Jesú er svo leyndardómsfullt og eftirsóknarvert. Við keppumst eftir því að höndla Jesú og nýja lífið því við erum höndluð af Jesú. Við gleymum því sem að baki er og seilumst eftir því sem framundan er. Þetta er kirkjan: samfélag þeirra sem leyfa sér að vera höndluð af Jesú, leyfa honum að sannfæra sig, og koma saman til uppörva hvert annað í boðskapnum um fagnaðarerindið um Jesú og dýrðarvon nærveru hans á meðal okkar. Guð með oss er boðskapur kirkjunnar allt árið. Hún fer ekki í manngreinarálit því Guð með oss innifelur alla menn.

Að sjá Jesú í náunga okkar er ævilangt verkefni sem Guð hefur gefið okkur. Sumir gefa okkur ekki mörg tækifæri til að sjá Jesú í þeim en sumir virðast hafa allt á hreinu án þess að hafa upplifað Jesú. Við getum ekki kallað neinn góðan því aðeins Guð er góður en að sjá Jesú í náunganum er að meta gildi hans og möguleika til að leyfa Jesú að blómstra. Kærleikur er það verkfæri sem við notum til að sjá Jesú í náunganum. Kærleikurinn breiðir yfir alla bresti, hann trúir öllu, hann vonar allt, umber allt. Kærleikur dvelur með þeim hrjáða, gefur þeim hungraða að borða og brosir til þess fýlda. Kærleikurinn sér Jesú að störfum á óvæntum stöðum og tekur þátt í verki hans hvar sem er. Fyrir þennan kærleik er hinn kristni ofsóttur og hæddur.

Boðskapur jólanna er Immanúel – Guð með oss. Loksins. Loksins sögðu hirðarnir, vitringarnir, Símeon og Anna fyrir rúmum tvö þúsund árum og með þeim segjum við líka LOKSINS. Hvort sem þú fyrst uppgötvaðir Guð með oss fyrir áratugum síðan eða fyrst í dag þá er upplifun okkar í dag: Loksins er Guð með oss. Loksins ætlar hann að framkvæma vilja sinn, Jesú í mér og Jesú í þér. Loksins er Guð með oss. Ef Guð með oss, hver er þá á móti?

þriðjudagur, apríl 12, 2011

... að vera mannlegur.

William Placher var vinalegur prófessor sem lést langt fyrir aldur fram árið 2008. Í bók sinni A Triune God skrifaði hann þessi hvetjandi orð:
We human persons are always failing to be fully personal. As persons, we are shaped by our relations with other persons. Yet we always deliberately raise barriers or cannot figure out how to overcome the barriers we confront. When those we most love come to die, or in the dementia of old age are no longer able understand what we may most want to say to them, we realize how much there was in our hearts that we never shared with them. When we best articulate our ideas, we cannot escape the feeling that there was something there we never quite captured. When we most rejoice in sharing with someone different from ourselves, difference nevertheless scares us. The doctrine of the Trinity, however, proclaims that true personhood, however impossible its character may be for us to imagine, involves acknowledging real difference in a way that causes not fear but joy.
Þvílík gleði að þekkja fólk.
Annars staðar sagði kappinn:
The way we best show our love to the whole world is… to love with a particular passion some little part of it.
Það er betra að fara djúpt en breitt.

þriðjudagur, febrúar 22, 2011

Að trúa öllu öðru

Ég er tilbúinn að trúa öllu öðru en því að Guð elskar mig skilyrðislaust.
Ég er tilbúinn að trúa því að ég þurfi langa menntun til að verða eitthvað þegar Guð vill ausa mig með speki.
Ég er tilbúinn að trúa því að ég þurfi nýtt sjónvarp þegar ég er ekki tilbúinn að sjá hvernig Guð sér heiminn.
Ég er tilbúinn að keyra bæinn endilangan til að grípa tilboð þegar Guð býður mér gnægtir... ókeypis.
Ég er tilbúinn að eyða klukkutímum ofan á klukkutíma í bíó, spil og hangs en tíu mínútur með Guði eru mér ofjarl.
Ég er tilbúinn að trúa auglýsingum um að ég þurfi þetta eða hitt en ég hlusta ekki á blítt kall Jesú.
Ég er tilbúinn að fara í kirkju á sunnudegi, jafnvel tvisvar, en að sitja og þjóna hinum lægsta bróður er fjarri mér.
Ég er tilbúinn að öðlast frægð og frama en vil helst ekkert gefa af mér.
Ég er tilbúinn að kallast maður Guðs en tennurnar gnísta er ég sé tómið sem ég leyfi Guði ekki að fylla.
Ég er engan veginn tilbúinn, en Guð; ég er búinn, þú mátt.

sunnudagur, febrúar 06, 2011

Hversu særanlegur er ég?

Það virðist vera að sérhver sá sem tekur þátt í kristilegu starfi komi út úr því særður á einhvern hátt. Ekki endilega mjög hrjáðir á líkama heldur með tilfinningaleg sár sem ekki er auðvelt að græða. Ég gæti líka sagt ,,... ekki auðvelt fyrir að gróa,“ með tilvísun í náttúrulega lækningu með tímanum en ég kýs að nota orðið ,,að græða“ því annars vegar læknar tíminn ekki öll sár og hins vegar, þá þurfum við að leyfa einhverjum að lækna og búa að sárum okkar. Þessi einhver er fyrst og fremst læknirinn ljúfi, Jesús Kristur sem með náð sinni og elsku hylur dýpstu hjartasár. Einnig megum við leyfa náunga okkar að hjálpa okkur í gegnum erfið særindi, kannski bara með því að hlusta þegar náungi okkar bendir okkur á að kroppa ekki í sárið heldur að leyfa lækninum að nostra við okkur.

Þeir sem að þekkja til þess einstaklings sem særður hefur verið og vita að hann hefur sleppt því að fyrirgefa af heilindum er sagt að taka tillit til þess að eitthvað slæmt hefur gerst í fortíðinni sem ekki á að tala um. Þeir sem koma nýir inn í hóp er sussað á þegar þeir minnast á efni tengt því forboðna, því ,,hérna tölum við ekki um svona lagað.“ Einstaklingurinn sem særður hefur verið nýtir sér það vald sem þöggunin gefur. Úr því að Jói skuldar Sigga eina milljón, má Siggi segja hvað sem er um Jóa og enginn má segja neitt við Sigga því hann er særður. Hanna sem misnotuð var í æsku má vera þrjósk og kaldhæðin því hún gekk í gegnum ýmislegt sem við tölum ekki um. Oft er það þannig í samfélagi okkar að sá sem brotið hefur á og hrópar hæst, hann hefur rétt fyrir sér. Gjaldið sem ég tek fyrir að láta brjóta á mér er að ég má haga mér eins og ég vil... Áður en að fyrirgefningin kemur til sögunnar.

Fyrirgefningin er það verkfæri sem okkur hefur verið gefið til þess að endurnýja mannleg samskipti, til þess að hjálpa okkur að verða mennsk á ný eftir að við nálguðumst óðfluga að verða skepnum lík. Fyrirgefning er að játa að náungi okkar er jafn breyskur og við sjálf, og jafn verðmætur og við sjálf. Þegar stigið er á tærnar mínar ætti ég að detta í gólfið og velkjast þar svo að einhver sýni aumur á mér, eða ætti ég að álykta að það var gert í óvarfærni og að ég hefði mögulega getað stigið á náunga minn. Þannig gæti ég lifað í anda fyrirgefningar, að það sem ég mögulega hef gert rangt gagnvart náunga mínum eða ég sé náunga minn gera það sem ég tel rangt verði standard fyrir þá hegðun sem ég vil í heiðri hafa. Svarið er ekki endilega að kaupa skó með stáltá sem vernda okkur fyrir umhverfinu. Svarið er frekar að umvefja þann með fyrirgefningu sem stígur á tærnar okkar, bæði þann sem stígur óvart (það leiðir til aukinnar varfærni í mannlegum samskiptum) og þann sem stígur vísvitandi (það leiðréttir ranga hegðun og skákar þá hegðun sem átti að vera lævís leikur).

Hversu særanlegur er ég þá? Þegar ég er opinn og einlægur í mannlegum samskiptum, á tásunum, er líklegt að ég verði fyrir hnjaski en það þarf ákvörðun til að rísa yfir það að troðið hefur verið á rétti manns. Ákvörðun sem segir: ,,Ég ætla ekki að sætta mig við ranga hegðun en ég leyfi henni ekki að særa mig bitrum sárum.“

Jesús bauð okkur að gera náunganum það sem að viljum að hann geri okkur. Stundum þurfum við að snúa því við og gera öðrum það sem að enginn hefur gert okkur. Ef að enginn hefur af fyrra bragði komið og beðist fyrirgefningar þá skaltu biðjast fyrirgefningar af fyrra bragði (jafnvel þótt það sé ekki endilega þín sök). Ef að enginn tók þig að sér á nýja vinnustaðnum skaltu taka nýja starfsmanninn að þér og bjóða hann velkominn. Þjóðfélag okkar má ekki við því að allir borgi í sömu mynt. Ef við fyrirgefum ríkulega náunga okkar þá mun faðir okkar á himnum fyrirgefa okkur ríkulega. Það hugarfar gerir okkur ekki auðsæranleg heldur auðmjúk, fær um að taka því sem kemur illa að okkur og gera úr því blessun. Guð ,,leiðir hógværa á vegi réttlætisins og vísar auðmjúkum veg sinn." (Sálm 25.9).