,,Allt varð þetta til
þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða:
,,Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann
heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss." - Matteus 1:22-23.
Grundvallarboðskapur
jólanna og kristninnar allar er þessi þrjú orð: Guð með oss.
Alla tilveru okkar, líf, hjálp, lausn, gleði og frið eigum við í
þessum þremur orðum: Guð með oss. Allt finnur tilgang sinn í
þessum orðum. Og þetta eru ekki orðin tóm heldur er þetta
upplifun þess raunveruleika sem Guð hefur haft í hyggju frá örófi
alda. Guð með oss LOKSINS.
Hann er ekki kominn
aðeins til að dvelja með okkur um stund. Tjaldbúðin í
eyðimörkinni og musterið í Ísrael var einungis tímabundinn
dvalarstaður Guðs. Guð sagði Ísraelsmönnum stöðugt að hann
vildi ekki takmarka sig við byggingu heldur vildi hann flæða þaðan
út, hann vildi fylla heiminn af sjálfum sér eins og vatnið fyllir
sjóinn. Hann vildi að tréin myndu klappa fyrir sér er hann gengi
fram hjá. En Ísraelsmenn hugsuðu: Guð fyrir oss – Guð BARA með
oss, og tímdu ekki að deila Guði með nágrönnum sínum og gátu
þess vegna ekki notið hans því Guð er kærleikur og kærleikur
fer til spillis ef honum er ekki deilt. Ísrael sá Guð með oss
ekki sem svar fyrir heiminn heldur tromp í ermi sér.
En vilji Guðs var þeim
leyndur. Vilji Guðs er ávallt leyndur þeim hrokafulla, þeim
eigingjarna, þeim níska, rógberum, lygurum og eiginlega öllum sem
ekki hafa sundurkramið og auðmjúkt hjarta. Leyndardóm vilja síns
birti Guð í náð sinni sem hann ætlaði sér að framkvæma í
fyllingu tímanna. Leyndardómur vilja Guðs er sá að hann ætlar
að safna öllu sem til er á himni og jörðu undir eitt höfuð í
Kristi. Öll saga heimsins fyrir Jesú, líf Jesú og allt sem gerst
hefur eftir opinberun hans hefur einn tilgang: allt vegna Jesú. Og
Jesús kom og gerði vesælasta kima vesælasta lands heimsins að
hásæti sínu, litla jötu í fjárhúsi. Og boðskapur Jesú frá
upphafi er sá að allt hefur tilgang og allt hefur afleiðingar. Ef
þú ert settur á lægstan stað í heiminum er huggun og von, ef þú
ert settur í hæstu hæðir ertu varaður við hátt fallið. Allt
miðast af því að Jesús er allt í öllu, Guð er með oss. Guð
með oss er núllstilling mannsins. Þessi vér
sem Guð með oss er
með, er mannkynið allt. Guð er kominn til að búa sér stað
meðal allra. Ekkert manngreinarálit. Guð með oss þýðir enginn
dómur, enginn aðskilnaður milli manna, ekkert misrétti og
mannamunur. Hvert barn sem fæðist inn í heiminn er innifalið í
oss. Það er ekkert
sem við getum gert í því nema að gera þeim grein fyrir því.
Guð dæmir réttilega á sinn hátt og einungis fyrir Jesú nafn
eigum við frelsið en það er ekki okkar verk að ákveða hver er
inni og hver er úti í ossinu.
Að
gera fólki grein fyrir því að það er innifalið í Guð
með oss er viðkvæmt verkefni
sem Jesús gaf vinum sínum. Guð með oss
er eilífðarverkefni okkar, að uppgötva hvernig Guð með oss
virkar í hversdagslífinu, í samfélaginu, í fjölskyldu, vináttu
og alþjóðamálum. Mikilvægasta skrefið í að uppgötva
drottinvald Jesú yfir heiminum og upplifa þann kraft sem býr í
okkur sem reisti Jesú upp frá dauðum, er að sjá Jesú í öðrum.
Við höfum verið dugleg að tala um Jesú í mér, að Jesús lifir
í mér og það gefur mér kraft til að lifa sigrandi trúarlífi.
En ef að Guð með oss er raunveruleikinn þá snýst lífið ekki
aðallega um að vita að Jesús búi í mér heldur um Jesú í ÞÉR.
Jesús í þér. Jesús býr í þér. Jesús býr í þessum, þeim,
honum, henni og öllum hinum. Jesús í þér
er fyrsta hugsun sem á að koma til okkar er við mætum manneskju.
Hvort sem það er ættingi, vinur, samstarfsfélagi, nágranni eða
óvinur. Jesús í þér er viðmót hins kristna. Guð faðir hefur
ekki farið í neitt manngreinarálit heldur hefur sett sitt einkenni
á okkur öll. Elska hans býr í öllum mönnum, fegurð Guðs,
réttlæti, friður og fögnuður; allt er þetta okkur í blóð
borið en ekki höfum við öll uppgötvað það. Að mæta náunga
okkar með því að hugsa Jesús í þér gefur
okkur tækifæri til að grafa þessa eiginleika Guðs fram í
náunganum. Um menn og konur sem lifað hafa einstöku og fallegu
lífi er oft sagt: Hún dregur fram það besta í mér. Hinn kristni
sem uppgötvað hefur Jesú í sér er orðinn að veiðara að Jesú
í þér. Sama hverjum hinn kristni mætir, bróður eða systur
innan kirkju, fjölskyldumeðlimi, vini, harðnaðasta glæpamanni og
betlara, þá er fyrsta hugsun hans Jesús í þér.
Sú hugsun er þúsund gráða heit og bræðir hið kaldasta hjarta.
Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í Jesú nafni þar er
hann mitt á meðal og það verður að raunveruleika þegar við
upplifum bæði Jesú í mér og Jesú í þér. Jesús mitt á meðal
– Guð með oss. Vísindamenn leita að guðseindinni, öreindinni
sem á að útskýra upphaf alheims. Hinn kristni leitar að
Jesú-eindinni sem hver maður hefur, hann ræktar hana, vökvar hana
og treystir Guði að gefa uppskeruna. Dæmisögur Jesú, gjörðir
hans og orð snúast öll að einhverju leyti um að sjá það sem
mönnum er hulið og opinbera það með viðeigandi hætti. Stundum
þarf langa bið og þolinmæði, stundum er þörf á róttækni og
stundum útsjónarsemi. En allt miðast að því að sjá Guð
með oss verða að veruleika.
Sá heimur sem uppgötvað hefur kraft Guðs með oss
heitir Guðs ríki og er sá raunveruleiki sem Guð starfar í. Jesús
sagði að Guðs ríki væri í nánd, í raun sagði hann að það
væri í seilingarfjarlægð.
Ríki
Guðs sem er í seilingarfjarlægð bíður þess að vera gripið og
upplifað. Myndmál Nýja testamentisins er svo ríkt af lýsingum á
þessu nýja lífi sem Guð bíður eftir að við uppgötvum og
njótum, eins og gjafari bíður óþreyjufullur eftir að viðtakandi
opnar gjöfina og nýtur. Jóladagur er of stuttur til að kafa í
merkingu þess. Þess vegna kemur kirkjan saman aftur og aftur og
aftur og aftur án þess að taka sér frí, því nýja lífið sem
við tökum á móti í Jesú er svo leyndardómsfullt og
eftirsóknarvert. Við keppumst eftir því að höndla Jesú og nýja
lífið því við erum höndluð af Jesú. Við gleymum því sem að
baki er og seilumst eftir því sem framundan er. Þetta er kirkjan:
samfélag þeirra sem leyfa sér að vera höndluð af Jesú, leyfa
honum að sannfæra sig, og koma saman til uppörva hvert annað í
boðskapnum um fagnaðarerindið um Jesú og dýrðarvon nærveru
hans á meðal okkar. Guð með oss er boðskapur kirkjunnar allt
árið. Hún fer ekki í manngreinarálit því Guð með oss
innifelur alla menn.
Að
sjá Jesú í náunga okkar er ævilangt verkefni sem Guð hefur
gefið okkur. Sumir gefa okkur ekki mörg tækifæri til að sjá
Jesú í þeim en sumir virðast hafa allt á hreinu án þess að
hafa upplifað Jesú. Við getum ekki kallað neinn góðan því
aðeins Guð er góður en að sjá Jesú í náunganum er að meta
gildi hans og möguleika til að leyfa Jesú að blómstra. Kærleikur
er það verkfæri sem við notum til að sjá Jesú í náunganum.
Kærleikurinn breiðir yfir alla bresti, hann trúir öllu, hann
vonar allt, umber allt. Kærleikur dvelur með þeim hrjáða, gefur
þeim hungraða að borða og brosir til þess fýlda. Kærleikurinn
sér Jesú að störfum á óvæntum stöðum og tekur þátt í
verki hans hvar sem er. Fyrir þennan kærleik er hinn kristni
ofsóttur og hæddur.
Boðskapur
jólanna er Immanúel – Guð með oss. Loksins. Loksins
sögðu hirðarnir, vitringarnir, Símeon og Anna fyrir rúmum tvö
þúsund árum og með þeim segjum við líka LOKSINS. Hvort sem þú
fyrst uppgötvaðir Guð með oss fyrir áratugum síðan eða fyrst
í dag þá er upplifun okkar í dag: Loksins er Guð með oss.
Loksins ætlar hann að framkvæma vilja sinn, Jesú í mér og Jesú
í þér. Loksins er Guð með oss. Ef Guð með oss, hver er þá á
móti?
Góður jólapistill. Gleðilega hátíð! :)
SvaraEyða