mánudagur, desember 27, 2010

Gjafir

Gjafir eru tákn um samband. Fjölskyldumeðlimir sem eru í sambandi gefa við ýmis tilefni gjafir. Eftir því sem sambandið er nánara verður gjöfin veglegri og persónulegri. Konfektkassi er ekki persónulegur nema þiggjandinn sé þekktur konfektunnandi. Sumar gjafir eru gefnar í von um nánara samband. Eiginmaður gefur konu sinni tvímenningshjól með það í huga að hjóla með henni. Faðir sem hefur verið fjarlægur barni gefur veglega gjöf í von um endurreisa brotið samband. Stundum virkar gjöfin sem skyldi en stundum má líka segja einstaklingum að nánara sambands sé óskað. Sú hugmynd að vinir og ættingjar þurfi að senda öllum póstkort og gjafir um jól er tiltölulega ný af nálinni og er haldið að okkur af búðareigendum. Þarf ég virkilega að gefa bróður mínum innpakkaða bíómynd, sem hann annaðhvort á nú þegar eða langar ekkert að sjá, á hverjum jólum til að sýna að ég kunni að meta samband okkar? Þurfa foreldrar mínir að fá hausverk yfir því að kaupa handa mér gjöf sem hvorki er of ódýr (til að móðga mig ekki) né of dýr (til að sliga þau ekki), til að sýna að þau elski mig? Ég held að sú elska sem ég upplifi í hverju því verki sem í velvilja er gert gagnvart mér gefi meir en oft óþarfar innpakkaðar gjafir. Nú má ég ekki vera misskilinn. Meir en ég stundum tel mig vilja, bíð ég óþreyjufullur eftir því að sjá hvað leynist í pökkunum; ég á bara auðveldara með að sýna stillingu núna á fullorðinsárum. En óþreyjan og spennan skapar stundum betri tilfinningu en það að halda á opnuðum gjöfunum inn í herbergi. Mikið er ég samt glaður yfir sælgætinu sem ég fæ, bókunum sem ég get lesið, sokkunum sem mig vantaði og fyndna dótinu sem einhver gaf mér vegna þess að hann hugsaði til mín þegar hann sá það í búðinni, en á svo mörgum sviðum lífsins stenst uppfylling biðarinnar ekki væntinga. Við setjum of mikinn fókus á að öðlast það sem við bíðum eftir að við föttum ekki að við getum vel lifað af án þess. Að bíða allan desembermánuð eftir súkkulaði og sokkum er kjánalegt og hlýtur að bregðast vonum. Sá sem að þekkir ekki hina ljúfu blessun biðarinnar – það er, að komast af án einhvers – hann mun aldrei upplifa fulla blessun uppfyllingar. Hið dýrmætasta sem við eignumst í þessum heimi öðlumst við ekki með því að bíða, borðandi smákökur í von um að öðlast lífshamingju á aðfangadagskvöld. Það mikilvægasta, mesta og ljúfasta öðlumst við með bið. Ekki biðar um að eitthvað gerist í hvelli, heldur samkvæmt lögmáli sáningar og uppskeru.

Guð þráir að gefa okkur gjafir sínar en hann gefur okkur þær ekki nema við fyrst verðum vinir hans. Og, ó, sú náð að fá að vera vinur Guðs. Abraham var kallaður vinur Guðs og hann trúði fyrirheiti Guðs um að hann myndi gefa honum son á tíræðisaldri. Vinir treysta hvor öðrum; að þeir hafi hag hvors annars fyrir brjósti, standi upp hvor fyrir annan og gefa gjafir á viðeigandi tíma. Í vinasambandi við Guð bíða sumir eftir gjöfinni of lengi og þegar þeir telja sig hafa fengið einhverja gjöf frá Guði þá verður hún ekki eins merkileg og gjöfin sem hann gaf Billy Graham og konunni í Hillsongkirkjunni. Þess vegna ákveðum við að setja gjöfina strax í geymslu, alveg eins og dúnsængurkassinn sem kom undan gjafapappírnum og fór upp í skáp þangað til að dúnsængin gæti notast. Hálfu ári seinna, þegar gest bar að garði, þurfti að nota dúnsængina og náð var í kassann. En úr kassanum kom glás af eldhúsverkfærum sem sett höfðu verið í kassann og hefðu getað nýst í brýnni nauðsyn síðasta hálfa árið. Þær gjafir sem Guð gefur okkur, gefur hann til að við fáum notið þeirra og vaxið með þeim. Guð geymir fjöldann af gjöfum fyrir okkur en hann nýtur þess að sjá okkur blómstra af þeim gjöfum sem hann telur okkur hæfa. Hringlur henta vel eins árs börnum og veita þeim ómælda gleði, en fjörutíu árum seinna er hringlan minnismerki um þá gleði sem gjöfin veitti. Sú gjöf að geta stutt eitt ABC-barn (www.abc.is) er ótrúleg gleði og blessun þá og þegar, en mörgum árum seinna þegar maður stendur sveittur að byggja barnaskóla í svörtustu Afríku (eins og mörg ykkar hafa örugglega gert) trúi ég því að maður hugsi til þess þegar maður studdi eitt barn í trú og ánægjan fullkomnast. Þá gjöf sem Guð gefur okkur hverju sinni verðum við að spyrja hann hvernig við eigum að nota og hvernig við getum notið hennar með honum. Það er einhvern veginn þannig að:

Stundum gefur Guð okkur brauð,
stundum vill hann kenna okkur að baka.
Stundum gefur Guð mikla uppskeru,
stundum gefur hann okkur fræ.
Alltaf gefur hann,
ekki þiggjum við alltaf.

Er við meltum jólin, líkamlega og andlega, lærum þá að nýta þær gjafir sem Guð hefur gefið okkur og lærum hvernig gjafir hans geti gert öðrum gagn. Hvernig getum við vitað að við séum að nýta þær til hins ítrasta? Gjafir hans veita blessun þeim sem sjá okkur, heyra í okkur og við okkur tala, og breiða út þekkinguna um Guð eins og góðan ilm. Ég bið þess að Guð gefi okkur örlæti í nægjusemi, visku í einlægni og gleði til að njóta þess með honum sem hann hefur gefið okkur.

fimmtudagur, desember 23, 2010

Takk trúleysingjar

Í sífelldu umróti samfélagsins og atburða liðinna missera gleðst hjarta mitt við þá rótfestu sem ég finn. Stofnanir hverskonar, veraldlegar sem og andlegar, segja Ísland á heljarþrön vegna sjáanlegrar hnignunar á viðurkenndum lífsháttum og hegðun. Hvar sem menn finna sig í lífinu er æpt yfir því óréttlæti sem birtist á svo margan hátt: börn kæra foreldra sína, fólk þiggur svífandi háar upphæðir frá ríkinu og sólunda í vitleysu, börn misnotuð af traustverðum einstaklingum og skinheilagir menn leika tveimur skjöldum. Hinn almenni borgari sligast með byrðina af því að heyra af þessum málum og vonar helst, ekki að einhver bjargi málunum heldur, að þurfa ekki að horfa í augu við enn fleiri þess konar mál. Aðrir þrífast á að heyra af ólifnaði annarra og telja sig verða meiri menn við það, berandi enga ábyrgð og vilja allra síst sjá jákvæða breytingu. Aðrir vonast eftir breytingu, leita til fortíðar þar sem allt var betra og benda á það sem hið algilda svar við vandamálum nútíðar. En ljónið Aslan, konungur Narníu, sagði: Hlutirnir gerast aldrei tvisvar á sama hátt.

Ægis vindar blása frá vígstöðum þeirra manna sem kalla sig trúleysingja og guðleysingja. Vindurinn er napur en beitt af hörku. Vandamál dagsins í dag eru, að þeirra sögn, sprottin frá því að í blindni hafa menn trúað og haldið að fólki þeim Kristi sem enginn heilvita maður gæti bendlað sig við. Og með markvissri, miskunnarlausri vinnu fá þeir ýmislegt í gegn inn í landslög, reglur borgarinnar og almenningsvitund sem þeir telja munu hnekkja á þeirri kristni sem allt snýst um að eyða. Kappið er mikið og framgangurinn eftir því. Það mikill að hinir kristnu hafa snúið spjótum sínum að hinum trúlausu og nú skal úrslitabardagi háður milli góðs og ills, og báðir telja sig góða. Sigur þýðir fyrir báðar herbúðir líf í friði og farsæld; loforð sem ávallt eru gefin fyrir stríð en sjaldnast standa undir sér. Báðar herbúðir sitja eftir meira og minna laskaðar án stefnu og vilja til uppbyggingar. Samstarf sem viðurkennir tilvist hins aðilans leiðir gjarnan til skilnings á lífssýn hins aðilans. Samtal í friði og kærleika getur veitt innsýn í það af hverju einstaklingur hætti að fylgja trúarkenningu og fann sig betur í trúleysi, eða hvernig einstaklingur sem hvergi fann svör og lífstilgang fann hugarró í trú á æðri mátt. Aðilar af öndverðum meiði ættu í þannig samtali að spyrja sig hvað það er í hinum aðilanum sem fær hann til að hugsa þannig og hvað getur betur farið. Kirkjunnar maður getur lært af þeim trúlausa sem segir frá slæmri reynslu af trúarróttækni og hinn trúlausi getur lært að trú er ekki bara neikvætt afl sem er mannspillandi. Þannig mætti ánægjulegt samfélag hinna mismunandi aðila gefa af sér skilningsríkara samfélag.

Og nú, með von um hrokaleysi af mínu hálfu, vil ég þakka hinum trúlausu. Ég vil þakka þeim fyrir að standa gegn orðum Jesú, standa gegn þeim krafti sem þeir finna að er svo hættulegur. Að standa gegn konunginum sem tók sér sæti í jötu og var leiddur nauðugur viljugur á kross. Ég vil þakka þeim fyrir að staðfesta orð Páls um að kross Krists sé gyðingum hneyksli og heiðingjum heimska. Svo lengi sem hinir trúlausu kalla kristindóm heimsku geta hinir kristnu þakkað þeim. Ef þeir kalla kristindóm ekki heimsku getur aðeins tvennt hafa gerst: kristindómur er orðinn svo daufur að saltið saltar ekki og þess vegna ekki ómaksins vert að úthúða honum, eða að hinn trúlausi hefur sannfærst af kærleika Krists! Hinn trúlausa vil ég því hvetja til andkristnihátíða, bingóspils á páskum og ákalls um brottnám kristinna gilda, en því fremur aldrei að telja sig hafa fundið hinn endanlega frið. Læra meira, lesa meira, gefa meira, elska meira. Hinn kristna vil ég hvetja enn djarfar.

Telji hinn kristni sig hafa fundið lífsfyllingu í Jesú Kristi þá þýðir það algjör kúvending á öllu því sem telst eðlilegur réttur. Telji hinn kristni sig finna kraft Guðs, þá noti hann hann ekki til eigin hagsmuna heldur taki sér stað meðal hinna lægstu, því Guð dvelur með þeim fátæku og hungruðu. Kraftur Guðs birtist í jötunni, að Jesús kemur í lítillæti, heimtar ekkert og óskar einskis, nema þess að menn hlusti á hann, láti sannfærast af orðum hans og gefi sér allt. Og það er ekki af eigingirni sem Jesús biður um allt, heldur þá einungis sem maðurinn hefur gefið Jesú allt getur Jesús gefið sig allan í Heilögum anda þeim manni. Kristindómur snýst ekki um mann. Kristindómur snýst um nærveru Guðs hér á jörðu, í Jesú Kristi. Guð vill að hinn kristni hlusti ekki á gagnrýnina á kristinni trú heldur á kallið sem býður okkur að vakna, til lífsins í elsku og fögnuði Guðs. Það líf mótast ekki af vindum samtímans, hvorki neikvæðum né jákvæðum, heldur af Heilögum anda sem stöðuglega leiðir hinn kristna til að elska meir þann sem ekki á það skilið því aldrei getur neinn sýnt okkur meiri óvild en Jesú var sýnd. En enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína, segir Jesús. Áður en hinn trúlausi getur skilið kærleik Guðs þarf heimurinn að sjá að hinir kristnu elska föðurinn og gera eins og hann hefur boðið þeim. Þakkir sendi ég aftur hinum trúlausu fyrir að halda hinum kristnu við efnið.