þriðjudagur, júní 29, 2010

Biblíusögur

Þið þekkið öll gömlu Biblíusögurnar sem sagðar voru í sunnudagaskólanum af gömlum konum. Og svo sunguð þið um Davíð og Daníel og Rut. Og lituðuð myndir. Þið þekkjið sögurnar alveg upp á 10. En svo verða sögurnar þreyttar og að heyra um Jónas í hvalnum í hundraðasta skipti verður svolítið lummó. Þá er það tvennt sem fólk gerir. Annað hvort (1) vex fólk upp úr því að hlusta á sögurnar en finnst svo sem ekkert að þeim, eða (2) finnst sögurnar það ótrúlegar að skást sé nú bara að hætta að trúa þeim og jafnvel gera grín að þeim. En, herrar mínir og frúr, það er þriðja aðferðin í boði. Hún felst í því að (3) lesa sögurnar og samhengi þeirra í Biblíunni og sjá sögurnar í nýju ljósi.


Það er margt sem maður kynnist þegar maður les sögurnar beint úr Biblíunni. Þá er enginn til þess að fela það safaríka (ofbeldi, svik, kynlíf) fyrir manni og jafnvel hörðustu menn fölna. Persónusköpunin er svo kyngimögnuð að bækur Arnalds og félaga verða barnabækur í samanburði. Að lesa Biblíusögurnar úr Biblíunni er þó ekki bara eins og að skella hrollvekju í tækið og glamra tönnunum; maður kynnist Guði á algjörlega nýjan hátt og situr stundum agndofa eftir, ófær um skýra hugsun en þó er allt breytt. Margar sögur koma til hugar sem hafa þessi ógurlegu áhrif: sagan um Samúel og Elí (virðist mjög saklaus í sunnudagaskólanum en er heldur betur mögnuð í Biblíunni), Davíð og Golíat (alltaf gleymist að nefna að Davíð heggur hausinn af Golíat og fagnar, en sagan er líka um framvindu karakters) og sú saga sem ég vil skoða til hlítar, Jónas í hvalnum.


Fyrst sunnudagaskólaútgáfan. Guð talar við Jónas og segir honum að fara til Nínive að segja fólki frá sér. Jónas vill ekki gera það og flýr. Hann fer í bát og það kemur óveður. Vegna þungans í bátnum draga menn strá til að ákveða hverjum er hent fyrir borð. Jónas er óheppinn og dregur stysta stráið. En svo heppilega vill til að hvalur gleypir hann og eftir þrjá daga í hvalnum spýtir hann Jónasi upp á land. Jónas ákveður þá að hlusta á Guð og fer til Níníve. Allir eru svaka glaðir að heyra um Guð og þeir halda veislu. Boðskapur sögunnar: Hlýddu Guði, annars verður þér hent úr Herjólfi.


Nú Biblíuútgáfan. Jónas er spámaður Guðs í Ísrael og hefur það eins huggulegt og spámenn hafa það (sem ekki prédika of hart). Svo biður Guð hann um að fara til höfuðborgar stærsta stórveldis heimsins, höfuðógnar Ísraels, og boða þeim elsku Guðs og fyrirgefningu. Jónas hefur minna en engan áhuga á því að deila elsku Guðs með óvinunum og flýr því til Spánar (Tarsis) í stað þess að fara til Írak (Níníve). Á leiðinni kemur óveður og skipverjar spyrja Jónas hvað guð hann trúir á og hann segir þeim og þeir verða enn skelkaðri því þeir vissu um þennan guð. Þeir heita á miskunnsemi Guðs og henda Jónasi útbyrðis. Guð sendi þá stóran fisk til að gleypa Jónas og þar inni syngur hann þakkarsöng til Guðs og ákveður að efna heit sitt við Guð. Jónas gengur þá til Níníve og þegar hann er kominn flytur hann stutta prédikun: ,,Eftir fjörutíu daga verður Níníve lögð í rúst!“ Og í þann mun sem Jónas hugsar að nú hafi hann lokið sínu hlutverki og að það sé frábært að Guð ætli að leggja borgina í rúst, þá trúðu Nínívemenn Guði og iðruðust. Öll borgin breyttist og leitaði Guðs, meira að segja konungurinn. Guð sá hjörtu mannanna og ákvað þá að ekki leggja borgina í rúst. Og þá kemur fjórði og síðasti kaflinn, sem aldrei er talað um í sunnudagaskólanum. Jónas verður brjálaður út í Guð og sagðist hafa vitað það að Guð myndi miskunna þeim út af því að hann er líknsamur og miskunnsamur, þolinmóður og gæskuríkur. Og Jónas var svo fúll að hann bað Guð um að taka líf sitt, hann nennti ekki að lifa í svona ósanngjörnum heimi. Jónas leggur sig og Guð lætur spretta upp rísínusrunna (runna sem í raun og veru sprettur upp í mannhæð á einni nóttu) til að vernda hann fyrir sólinni. Þá varð Jónas aðeins léttari í lundu en svo sendi Guð orm sem stakk runnann og hann visnaði. Þá örmagnaðist Jónas í sólinni og reiddist Guði og vildi aftur deyja. Sagan endar á því að Guð spyr Jónas hvort honum (Guði) sé ekki meira annt um 120.000 manns í Níníve en einhvern runna sem vex og visnar. Boðskapur sögunnar: Það er ekki nóg að vita um Guð eða þjóna honum, við þurfum að elska hann og alla eiginleika hans til að njóta hans á réttum forsendum.


Nokkur líkindi eru milli Jónasar og Kick-Ass ofurhetjunnar. Báðir sáu þeir að eitthvað þurfti að gera; Guð talaði við Jónas, óréttlæti talaði til Kick-Ass. Báðir lentu í miklu veseni áður en þeir gátu sinnt erindum sínum. Báðum er eignaður heiðurinn af miklum hetjudáðum sem lítil innistæða er fyrir (Kick-Ass er skömminni skárri því hann vann hetjudáð að lokum eftir að hafa verið réttur maður á réttum tíma oft, Jónas var bara vælukjói).


Sem betur fer hugsar Guð öðruvísi en Jónas. Um hvort er Guð umhugaðra: Margar plöntur út í sveit með fáu fólki eða margt fólk í borginni með fáum plöntum? Í Reykjavík búa 118.447 manns og enn meira með bæjunum í kring. Guð elskar svo sannarlega sveitina og landsbyggðina þar sem fólk nýtur sín í návist náttúrunnar. En Guð elskar og þráir að fólkið í borginni nýti nálægð hvers annars og lofi sig saman. Hann þráir að út frá borginni flæði réttlæti, friður, gleði og ávextir andans. Jónas var ekki með hugann við það. Hann langaði ekki að sjá Guð frelsa, sjá anda Guðs hræra við staðnum.


Jónas vildi sjá borg manna eyðast,
Guð vildi sjá borg Guðs verða til.


Biblíusögurnar kenna okkur.